Félagsútilega Mosverja helgina 5.-7.nóvember gekk mjög vel.
Til að byrja útileguna héldum við kósí varðeld í lautinni hjá KSÚ skálanum þar sem að við sungum nokkra söngva og Gunni Atla sagði okkur söguna um Abijójó. Veðrið lék við okkur á laugardeginum og það snjóaði aðeins á okkur seint um laugardagskvöldið. Drekaskátarnir mættu sprækir í dagsferð á laugardeginum og reyndu fyrir sér í klifurturninum fyrir hádegi og póstaleik eftir hádegi.
Hjá fálkaskátum og dróttskátum var Hin mikla flokkakeppni fyrir hádegi og þurftu flokkarnir að kljást við ýmsar þrautir.
Hádegismaturinn var eftirminnilegur. Krakkarnir elduðu sjálfir úti á prímus og öllum var skipt niður í hópa. Hóparnir drógu svo mismunandi lönd og var úthlutað mat eftir því. Þannig fékk Bandaríkin óendanlega mikinn mat og fínar gashellur til að elda á, en Eþíópía fékk varla nóg fyrir hópinn. Þegar leið á matseldina þá deildist maturinn betur yfir löndin því allir skátar eru svo góðir vinir og hjálpast að.
Um kvöldið var hressandi kvöldvaka með flottum skemmtiatriðum og þar var svaka stuð. Eftir hana fengu drekaskátarnir kakó og fóru svo heim með rútunni eftir langan en skemmtilegan dag.
Þá tók við æsispennandi næturleikur þar sem að Indiana Jones, klikkaði prófessorinn, Górillan og Geimveran komu við sögu ásamt fleiri góðum persónum. Flokkarnir leystu þrautir og söfnuðu hráefnum til að útbúa sannleiksseyði fyrir geimveruna að drekka, því að aðeins hún gat vísað þeim á týndu Tótem súluna úr HúbbaLúbba þorpinu.
Sunnudagurinn fór í frágang og tiltekt í skálanum og svo sigum við úr turninum. Veðrið var svolítið blautt en við létum það ekki á okkur fá.
Helgin gekk rosalega vel og krakkarnir voru mjög duglegir alla helgina.
Myndir eru að finna á myndasíðu mosverja

Takk fyrir góða helgi!