Á fysta fundi drekaskáta í gær fór fram drekaþing. Á drekaþingum er á mismunandi hátt valin verkefni sem unnin eru á fundum sem framundan eru.

Í gær notuðum við þá aðferð að líkja eftir Alþingi Íslendinga. En í staðin fyrir að ræða um fjárlög og annað sem alþingismenn ræða þá skiptum við okkur í hópa sem fluttum mál dagskrárverkefna. Hver hópur valdi sér verkefni sem það vildi hvetja hópinn til að kjósa og útnefndu sér svo ræðumann. Ræðumaðurinn tók saman kosti verkefnisins og flutti svo ræðu við ræðupúlt og hvatti fólk til að kjósa þeirra verkefni. Að lokum var svo gengið til leynilegra kosninga og talið upp úr kjörkassanum með tilheyrandi fagnaðarlátum.

Úr varð að í þessum dagskrárhring munum við taka fyrir verkefnin: Fyrsta hjálp, Skilaboðaskjóða og Tiltekt í skátaheimilinu.

Það var frábært að sjá hversu vel þau lifðu sig inn í aðstæður. Þau fluttu ræður með tilþrifum og sannfæringu. Það er nokkuð ljóst að í þessum hópi drekaskáta eru nokkrir tilvonandi alþingismenn!

Dagskrá vorsins fór heim með drekunum í gær og einnig er hægt að nálgast hana hér. Eins og þið sjáið þá er vorinu skipt í þrjá kassa sem tákna þrjá dagskrárhringi með sitt hvoru þemanu. Í upphafi dagskrárhringja eru haldin drekaþing sem eru útfærð á mismunandi hátt.

Ef einhverjar spurningar eru þá endilega verðið í sambandi.

Dagga og ofurdrekarnir.