Síðastliðna helgi fór fram hin árlega ævintýra- og útivistarkeppni Mosverja fyrir dróttskáta, en dróttskátar eru á aldrinum 13-15 ára. 

Skátarnir skipta sér í tveggja til þriggja manna lið og stunda útivist og keppa í rötun og öðrum skemmtilegum þrautum í hrollkaldri vetrarnátturunni í kringum Hafravatn. 

Keppnin gengur út á það að safna stigum sem fást fyrir hinar ýmsu þrautir sem búið er að dreifa umhverfis Hafravatn. Þrautirnar eru staðsettar allt frá toppi Úlfarsfells til Langavatns. Liðin þurfa að ákveða hvaða þrautum þau ætla að ljúka og fá til þess afmarkaðan tíma. Það er svo þeirra að skipuleggja leiðina. Aukastig eru auk þess gefin fyrir að sofa í tjaldi, en það er stór áskorun þegar allt er þakið snjó og kuldaboli bítur kinnar. 

Skemmst er frá því að segja að allir tóku áskorunina um að sofa í tjaldi og leystu svo þrautir sínar með glæsi brag á laugardeginum. Á laugardagskvöld var svo vel tekið á móti hópunum með hamborgaraveislu að hætti Mosverja. 

Þegar öllum stigum hafði verið safnað saman stóðu þrír vaskir sveinar uppi sem sigurvegarar og hlutu að launum vandaða áttavita í verðlaun sem eflaust eiga eftir að hjálpa þeim að rata rétt í framtíðinni.

Sigurvegarar í Hroll 2015 voru Kristófer Örn Stefánsson, Jakob Lipka Þormarsson og Stefán Unnar Gunnarsson.

Gleði, skemmtun og áskoranir eru minningarnar sem verða eftir í huga dróttskátanna eftir helgina og eru þau strax farin að hlakka til að taka þátt að ári. 

Skátafélagið Mosverjar þakkar þátttakendum og skipuleggjendum fyrir vel heppnaðan Hroll 2015.