Fréttir

Félagsútilega Mosverja var haldin 14. – 16. nóvember og þema útilegunnar var Víkingar. Farið var á Úlfljótsvatn og tóku 60 skátar þátt í útilegunni.

Dagskráin var fjölbreytt og var í höndum Rekkaskátanna (16-18 ára) sem höfðu skipulagt hana með þemað að leiðarljósi. Sem dæmi voru búnir til bogar, eldað á hlóðum og æfðar skylmingar. Einnig var klifrað og sigið í klifurturni og föndrað úr leðri. Um kvöldið var haldin fjörug kvöldvaka og svo var farið í æsispennandi næturleik.

Mikið fjör var í útilegunni og skátarnir skemmtu sér vel enda frábært veður alla helgina.

Dagskrárhringurinn hófst með frábærum lýðræðisleik í formi Alþingis. Þá fengu drekaskátarnir að velja sér frumvarp sem flytja þurfti fyrir hina skátana á fundinum í formi ræðu, alveg eins og á Alþingi. Það er nokkuð ljóst að þessir drekar eiga ekki eftir að eiga í vandræðum með ræðumennsku í framtíðinni.

Síðan þá höfum við lært hnúta, fyrstu hjálp og sögu Baden-Powell auk þess sem við erum að æfa skátasöngva fyrir kvöldvökuna í Hlégarði mánudaginn 25. febrúar n.k.

Á næsta fundi ætlum við að kynnast skátalögunum og fáum einnig gest til okkar sem heitir Tinni og er að læra uppeldis- og tómstundafræði í HÍ.

Ég er búin að setja dagskrána okkar hér inn á heimasíðuna og má finna hana HÉR.

Kveðjur frá Döggu og ofurdrekanum Friðriki.

Á síðasta fundi fóru fram lýðræðislegar kosningar um dagskrá næsta dagskrárhring. Kosið var um ýmiss verkefni sem tengjast stjörnum. Það er nokkuð ljóst að mikið stjörnufans verður á næstu vikum.

Ég minni á að þriðjudaginn 30. október verður enginn fundur hjá drekaskátum þar sem foreldraviðtöl eru í skólum bæjarins og af fenginni reynslu þá er afar lítil mæting hjá drekaskátum þegar ekki er um venjulegan skóladag að ræða.

Kveðjur

Dagga og ofurdrekarnir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Svona lítur það út þegar 72 frábærir Mosverjar stilla sér upp í myndatöku. Enginn smá fjöldi!

Komumst að því að hljómburðurinn er frábær þegar einhver kallar: Hverjir eru bestir? og allir svara........

MOSVERJAR!

Fálkaskátasveitin Hafernir hófu vetrarstarfið í byrjun september. Á fyrsta fundinum var hitað kakó á opnum eld og strákarnir sýndu listrænt handbragð við tálgun. Síðan vorum við í síðustu viku uppi við Hafravatn. Þar var silgt á kajak, kanó og gúmmíbátnum í frábæru veðri. Á fundinum í dag höfðum við lýðræðileik í formi markaðar þar sem bestu dagskrárhugmyndir strákanna voru seldar hæsta verði. Góð stemmning er í hópnum og allir hlakka til næstu funda. Fundartíminn er mánudagar kl: 17.00 - 18.30. Foringjar eru: Ævar Aðalsteinsson, Bergsveinn Stefánsson og Gunnar Ingi Stefánsson. Nú eru 15 strákar komnir í Haferni.Laughing

Á sunnudaginn var Landsmót skáta sett eftir miklar rigningar. Mosverjar komu á Úlfljótsvatn um 11.00 en þá var verið að reysa eldhústjaldið. Þegar það var komið upp var skipt liði og sumir fóru í að reysa svefntjöld fyrir skátana á meðan aðrir komu upp aðstöðu fyrir eldun. Klukkan 20 var síðan komið að mótssetningu og þá dróg nokkuð úr rigningunni. Nokkuð blautt var á svæði Mosverja og þurfti að stinga upp grasið til að koma vatninu í burtu. Vatn flæddi inn í 3 tjöld en engum varð meint af. Kl. eitt aðfararnótt mánudags voru allir sofnaðir. Á mánudagsmorgun var ágætis veður og voru settar upp yfir 50 metrar af snúrum og mikið af fatnaði, dýum og nokkrir svefnpokar settir út til þerris. Skátarnir undu sér vel við tjaldbúðarstörfin og tóku þátt í dagskránni.

Skátunum líður vel enda er það markmið foringjanna að svo sé. Hinsvegar hefur álagið á foringjana verið nokkuð þar sem sama fólkið er í öllu. Við erum 6 manns sem sjáum um 33 skáta ásamt því að koma upp aðstöðunni. Öll aðstoð er vel þegin. Ef einhver getur aðstoðað okkur við matseldina þá er bara að hafa samband við Kollu fararstjóra í síma 665 6149.

Nóg er um að vera í fjölskyldubúðum. Fólið það tekur þátt í dagskrá mótssins, fer í gönguferðir um mótssvæðið og í kringum það. Á kvöldin geta allir fylgst með skátunum á kvöldvökum/varðeldum og farið í kaffihúsið í fjölskyldubúðunum sem opnar eftir að leikskóli barnanna lokar síðdegis.

Að lokum hvetjum við alla til að koma í heimsókn um helgina. Hægt er að tjalda um helgina eða bara koma í heimsókn á laugardaginn. Þá þarf en nokkrar hendur á sunnudag til að aðstoða við frágang, fyrst við að taka niður svæðið og síðan að koma fyrir öllu dótinu á sinn stað við komu í bæginn. Til að bjóða sig í þá vinnu er gott að hringja í Gunnar Atlason í síma 822 3619.

Reyni að setja frekari fréttir af okkur þegar líður á vikuna.

Nú eru liðnar 3 vikur af Ævintýranámskeiði Mosverja og er búið að vera mikið gaman í sumar. Enn eru þrjár vikur eftir og eru laus pláss.

Í næstu viku verður mjög gaman og ætlum við að fara í hjólaferð í skógarræktina, víkinga leika á Víkingaleikvellinum, kassaklifur, svo eitthvað sé nefnt. Á föstudeginum förum við svo á Álftanes og ætlum við að hitta leikjanámskeiðið á Álftanesi. Þar verður mikið húll um hæ, grill, sund og leikir.
Enn eru nokkur laus pláss svo um að gera að skrá sig til að missa ekki af þessari frábæru viku.

Seinustu tvær vikurnar (9.-13 júlí og 16.-20. júlí) er enn nóg pláss á og verður einnig mjög gaman á þeim. Bæjarferð, kassaklifur, ísgerð, bátar á hafravatni og margt fleira.

 

Hlökkum til að sjá sem flesta í sumar

Kveðja
Embla og Finnur
Umsjónarmenn Ævintýranámskeiðsins

Á drekafundum í gær var farið í ruslatínslu og ruslið notað til að búa til ógurleg RUSLASKRÍMSLI.

Það verður að segjast að skrímslin eru afskaplega sæt og fín og umhverfið í kringum skátaheimilið er enn fínna í staðin.

ATH! Í næstu viku er 1. maí á þriðjudaginn og því er ekki drekafundur í næstu viku!

Hér má sjá afrakstur fundana.

 

Í gær gerðu drekaskátarnir heiðarlega tilraun til útieldunar.

Yngri hópurinn reyndi að baka muffur í appelsínuhýði yfir eldi og það smakkaðist eiginlega bara illa. Það sýnir okkur það að allar uppskriftir sem fengnar eru á netinu eru ekki endilega að heppnast vel. Þó gerðum við líka Indjánanammi á primus, og það smakkaðist vel.

Þegar koma að eldri hópnum ætluðu foringjarnir aldeilis að hafa lært af mistökunum og skelltu deiginu í stóra pottjárnspönnu til að gera frekar köku úr, en það heppnaðist ekki betur en svo að hún var með öllu óæt! En, enn og aftur bjargaði Indjánanammið eldamennskunum.

Þá má ekki gleyma að veðrið var líka á móti okkur í gær og vorsólin sem var búin að glenna sig öðru hverju yfir daginn lét sig alveg hverfa og í staðinn fengum við renn blauta hundslappadrífu! allir fóru því blautir heim eftir þennan drekafund :o/

Það góða við fundinn var þó að krakkarnir stóðu sig frábærlega og voru ekkert að svekkja sig á því að drekamamma og ofurdrekarnir stóðu sig ekki betur en svo í bakstri að allt fór þetta meir og minna í ruslið.

Við tökum þessu með bros á vör og gerum bara betur næst.

Dagga og ofurdrekarnir

Um helgina var Ævintýrakeppnin Hrollur og var mikið fjör og mikið gaman!

Þó var fámennt en góðment. Ekki er hægt að segja að veðrið léki við okkur en hörkutól tóku þátt og létu það ekki á sig fá.

Krakkarnir mættu að Hafravatnsafleggjarann klukkan 6 og röltu þaðan á Hafravatn. Um kvöldið var svo skipulagt planið fyrir aðalkeppnina á laugardeginum. Á laugardeginum í rigingu og roki fylgdu hörkutólin plönunum sínum og leystu ýmis verkefni, þar á meðal að prjóna, búa til snjókarl, bootcamp og margt fleira.

Á sunnudeginum voru svo tilkynnt úrslit og voru það Mosverjarnir Atli Freyr Gylfason og Ísak Árni Eiríksson, og Hraunbúinn Jón Guðnason sem fóru með sigur að hólmi. Í öðru sæti voru Jakob Máni Sveinbergsson, Hrafnhildur Freyja Kristinsdóttir og Birta Ísafold Jónasdóttir. Í þriðja sæti voru Íris Freyja Salguero og Fanney Guðmundsdóttir.

Verðlaunin voru ekki í síðri kantinum. Fyrir fyrsta sætið var multi-tool hnífur og auðvitað farand bikarinn, fyrir annað sæti var hita brúsi og þriðja sætið var "light my fire" matarsett og áttaviti.

Myndir eru komnar á picasa síðu Mosverjar

Við þökkum krökkunum fyrir frábæra keppni og vonumst til að sjá þau öll í Hrolli 2013 !

Hrolls stjórnin

Í gær héldu Mosverjar upp á 50 ára afmæli sitt í Hlégarði. Margt góðra manna heiðraði okkur með heimsókn  og má þar nefna Skátahöfðingann Braga Björnsson, Bæjarstjórann Harald Sverrisson og  félagsforingja Mosverja síðustu 30 ár. Allir sveitarforingjar félagsins fengu gjöf frá félaginu enda væri ekki þetta góða skátastarf í félaginu nema þeirra liti við. Mosverjar þökkuðu Mosfellsbæ fyrir stuðning í gegnum árin með því að veita Bæjarstjóranum Þjónustumerki Bandalags íslenskra skáta og mynd frá Alheimsmóti skáta 2011 en þar voru fánaverðir í setningarathöfninni frá Mosverjum. Þá voru veittar starfsaldursviðurkenningar til skáta sem starfað hafa í 5, 10, 30 og 40 ár.

Þá var skrifað undir þjónustusamning á milli Mosverja og Mosfellsbæjar um samstarf í náinni framtíð. Þar var rammað inn starfið í nútíð og framtíð og gaman verður að halda áfram og byggja á þessu samstarfi.

Eftir skemmtilegan hátíðarfund bauð félagið gestum upp á dýrindis köku frá Mosfellsbakaríi.

Ég vil óska Mosverjum til hamingju með daginn, og þakka öllum fyrir góðar kveðjur í tilefni dagsins.

Að lokum þakka ég öllum þeim sem komu að deginum á einn eða annan hátt við undirbúning og framkvæmd.

Gunnar Atlason, félagsforingi.

Nú eru dagskrár sveitanna kláraðar á má finnar þær undir sveitinni sem skátinn er í hér til vinstri og þar í undirhlekknum ,,Sveitaráætun". Eina dagskráinn sem er ekki full kláruð er dagskrá Ds. Óríons, en mun hún koma inn á heimasíðunna á næstu dögum.

kv. Embla Starfsmaður

Á fysta fundi drekaskáta í gær fór fram drekaþing. Á drekaþingum er á mismunandi hátt valin verkefni sem unnin eru á fundum sem framundan eru.

Í gær notuðum við þá aðferð að líkja eftir Alþingi Íslendinga. En í staðin fyrir að ræða um fjárlög og annað sem alþingismenn ræða þá skiptum við okkur í hópa sem fluttum mál dagskrárverkefna. Hver hópur valdi sér verkefni sem það vildi hvetja hópinn til að kjósa og útnefndu sér svo ræðumann. Ræðumaðurinn tók saman kosti verkefnisins og flutti svo ræðu við ræðupúlt og hvatti fólk til að kjósa þeirra verkefni. Að lokum var svo gengið til leynilegra kosninga og talið upp úr kjörkassanum með tilheyrandi fagnaðarlátum.

Úr varð að í þessum dagskrárhring munum við taka fyrir verkefnin: Fyrsta hjálp, Skilaboðaskjóða og Tiltekt í skátaheimilinu.

Það var frábært að sjá hversu vel þau lifðu sig inn í aðstæður. Þau fluttu ræður með tilþrifum og sannfæringu. Það er nokkuð ljóst að í þessum hópi drekaskáta eru nokkrir tilvonandi alþingismenn!

Dagskrá vorsins fór heim með drekunum í gær og einnig er hægt að nálgast hana hér. Eins og þið sjáið þá er vorinu skipt í þrjá kassa sem tákna þrjá dagskrárhringi með sitt hvoru þemanu. Í upphafi dagskrárhringja eru haldin drekaþing sem eru útfærð á mismunandi hátt.

Ef einhverjar spurningar eru þá endilega verðið í sambandi.

Dagga og ofurdrekarnir.